Kjöt í karrý

Eftir áralangt tuð fjölskyldunnar eldaði ég loksins kjöt í karrý. Ég hef haft sérstakt ógeð á þessum mat síðan ég var krakki og ekki mikið langað til að elda hann. Ég hef hins vegar fengið aukinn áhuga á íslenskum heimilismat og lét undan. Merkilegt nokk tókst mér að gera mjög ljúffenga máltíð úr þessu. Og það þrátt fyrir blátt bann við því að gera nokkuð fancy við sósuna! Enda svindlaði ég, eins og sést á uppskriftinni.

Kjöt í karrý f. 4

Kjöt og soð:
1 kg súpukjöt
2 laukar
krydd og grænmeti í soð, sjá nánar að neðan en að minnsta kosti piparkornin og lárviðarlauf

Grjón og meðlæti:
2 bollar grjón (meira ef fólk hefur sérstakt dálæti á grjónum)
4 gulrætur

Í sósuna
30 g smjör
2 msk hveiti
krydd, sjá að neðan, en að minnsta kosti 2 tsk karrý. Ég notaði Prima, en ég er ekki frá því að Gevalía sé málið.
mjólk eftir þörfum, ca. 1-2 dl

Nánari útlistun á kjötsuðu:
Kjötið á beinunum og með allri fitu fer í pottinn, ásamt laukunum 2, hýðislausum.
Setjið endilega annað grófsaxað grænmeti eftir hendinni
(ég notaði 1 gulrót , 1/2 harðan kjarnan úr hvítkálshaus, kartöfluhýði og 2 geira hvítlauk)

Ég notaði alls konar krydd til að uppfylla þörf mína fyrir að fikta í klassíkinni. Það er ekki vitlaust að hafa kryddin í grisju, þá er engin hætta á að neinn bíti í negulnagla þegar sest er að snæðingi.
20 svört piparkorn
2 lárviðarlauf
1 “armur” stjörnuanís (má sleppa, en hann eykur kjötbragðið. Það var ekki hægt að greina neitt anísbragð í tilbúnum réttinum)
4 heilar kardimommur
4 negulnaglar
2 allspice ber
2 einiber
2 tsk kóríanderfræ
nokkur þurrkuð fenugreeklauf (gefa rosalegan karrýilm, fást í indversku búðinni á Suðurlandsbraut undir nafninu Kasoori Methe)
nokkur þurrkuð karrýlauf (gefa öðruvísi karríilm, fást í flestum asískum verslunum)
1 þurrkaður chilli (eða smá chilliduft)
1 tsk rósmarín
1/2 tsk herbes de provance (lambakrydd væri eflaust ágætt líka)
1/2 tsk esdragon

1 tsk worchestersósa
1 msk fiskisósa (nota hana ósjaldan í staðinn fyrir kjötkraft)
smá slurkur af kaffi, ef vill
gróft salt, ca. 1 msk (ef notað er fínmalað salt, þá þarf auðvitað minna)

Vatn látið fljóta yfir, pottlokið á, og svo má þetta malla í 2-3 klukkustundir.

Þegar kjötið er vel soðið, má veiða það upp úr og taka mestu fituna af og fleygja.

Soðið er síað. Ég síaði soðið í gegnum grisju, og þá varð nær öll fitan eftir í grisjunni. Það má líka hirða mauksoðnu gulræturnar úr soðinu ef einhver hefur smekk fyrir þeim.

Nú skal setja hrísrjónin yfir. Ég tók bolla af soðinu og setti í hrísgrjónasuðuna og bætti við 1 tsk salti.

Svo skal sjóða meðlætisgulræturnar í bitum í soðinu í 10-12 mínútur.

Þegar gulræturnar eru tilbúnar hefst sósugerð.
Ég bætti 2 tsk af Martini Rosso, 1 tsk af möluðuð hvítum pipar og 1 tsk af rauðvínsediki í soðið. Það væri jafnvel betra að nota 2 matskeiðar af rauðvíni í staðinn fyrir teskeiðarnar af Martini . Vín, edik og hvítur pipar ýta undir brúnsósukeiminn sem ég vildi ná fram.

Ég sauð svo soðið niður úr ca. 1 lítra niður í ca. 3 dl. Einfaldast er að vera með soðið í potti á heitri hellu og hafa stóra heita pönnu á annarri hellu. Hella góðum slurk af soði úr pottinum í pönnuna og sjóða niður á pönnunni um 2/3 og hella í ílát. Endurtaka þar til búið er að sjóða allt soðið niður.

Þegar búið er að sjóða niður, á að búa til smjörbollu. Ég leyfði hveitinu að brúnast örlítið í smjörinu, og hrærði svo upp með slurk af mjólk. Hrærði svo soðinu út í og þynnti svo með mjólkinni þar til hún var temmileg. Svo setti ég karrýið (kannski aðeins meira en þessar 2 tsk), 1 tsk af túrmerik og hnífsodd af garam masala. Ef ég hefði átt fenugreekfræ hefði ég líklega malað 1/2 tsk og bætt út í. Sósan látin sjóða aðeins svo hún þykkni, hrært stöðugt á meðan.

Allt borið fram.

Þetta var mj. gott. Enginn kvartaði yfir að þetta væri of fancy (enda allt fancy-ið falið í soðinu og bragðbætti bara sósuna og kjötið) og ég er ekki frá því að ég muni malla svona aftur fljótlega.Kjot_i_karry_4

Leave a Reply