Archive for August, 2013

Keema matar í flatbrauði

Tuesday, August 27th, 2013

Keema matar er indverskur hversdagsmatur. “Keema” þýðir “hakk” og “matar” þýðir “grænar ertur”. Þetta er svona indversk útgáfa af chilli con carne 🙂 Þar sem vanþakklátu börnin mín fóru að kvarta þegar ég minntist á að ég myndi elda indverskt, ákvað ég að poppa þetta örlítið upp svo þeir myndu nú snæða eitthvað. Ég ákvað að bera þetta fram í flatbrauði með fersku grænmeti og myntujógúrtsósu. Þeir þurftu að éta yfirlýsingarnar oní sig og sá yngri, sem er einmitt aðalfordómafauskurinn, fékk sér annan skammt.

Efni í kássu:
2 tsk kóríanderfræ
1 tsk broddkúmenfræ (cumin á ensku, jeera ef keypt í asískri búð)
(ef það er ekki til mortél eða kryddkvörn, má nota 2 tsk af formöluðum kóríanderfræum og 1/2 tsk möluðu cumin í staðin fyrir fræin að ofan)
500 grömm lambahakk (það má nota nautahakk. Lambahakkið er meira alvöru)
50 grömm smjör
2 stórir laukar eða þrír meðal.
6 negulnaglar
þumlungsbiti af kanilstöng
lárviðarlauf
1 msk garam masala (helst heimagert, sjá uppskrift)
1 tsk túrmerik
1 tsk paprikuduft
1 grænn chilli (svona týpískur eins og fæst í íslenskum matvörubúðum)
1 þumlungur engifer
5 geirar hvítlaukur
1 dl jógúrt, grísk jógúrt eða sýrður rjómi
1 dós af tómötum
smá ferskt kóríander, ef vill (ég notaði ca. msk af smátt söxuðu kóríander)
1 bolli af frosnum grænum ertum
salt
pipar

Flatbrauð:
Ég ætlaði að gera chapati, en svo þurfti eldri drengurinn að hitta vini sína á ákveðnum tíma, þ.a. ég flýtti fyrir mér með að hita bara hveititortillur á heitri hellu. Mjög heppinn, einmitt að eiga tortillur inni í skáp.
Þ.a. 6-8 tortillur

Myntusósa:
10 blöð fersk mynta
2 geirar hvítlaukur
handfylli af graslauk
smá salt
1 dl jógúrt, grísk jógúrt eða sýrður rjómi

Ferskt grænmeti:
Saxaður laukur, við notuðum einn og hálfan.
Söxuð paprika, við notuðum eina rauða. Ég held að græn hefði jafnvel passað betur, en grænar paprikur eiga ekki upp á pallborðið á þessu heimili.

Ég setti líka Srirachi sósu á borðið. Hún passaði vel með.

Aðferð:
Búið til kássu:
Steikið hakkið við háan hita, jafnvel í skömmtum, svo það brúnist vel. Piprið fullt og saltið. Ég pipraði það vel að ég þurfti ekki meiri pipar í uppskriftina. Setjið hakkið til hliðar þegar það er allt brúnað. “Deglazið” með vatni og hellið út á hakkið. Ekki samt gera það ef hakkið sem festist við pönnuna náði að brenna. Brunabragð bætir ekki uppskriftina.
Á sama tíma skal rista kóríander- og cuminfræin á þurri pönnu við háan hita. Hrærið eða hristið pönnuna reglulega svo þau brenni ekki. Þau eiga að verða dökkbrún án þess að brenna! Setjið til hliðar á skál þegar þau eru tilbúin svo þau hitni ekki frekar á heitri pönnunni.
Steikið saxaðan lauk í smjöri við lágan hita, með kanilstönginni, lárviðarlaufinu og negulnöglunum. Saltið. Malið kryddfræin í mortéli eða kryddkvörn á meðan hann mýkist. Þegar laukurinn er aðeins farinn mýkjast (eftir ca. 10 mínútur ef hitinn er nógu lágur) má bæta út í smátt söxuðum hvítlauknum, engifernum og chilli-inu og fjarlægja kanilstöngina. Svo má hræra öllu þurra kryddinu saman við, ásamt nýmöluðum kryddfræunum.
Saxið niðursoðnu tómatana smátt. Ég setti þá í bolla og maukaði þá með töfrasprota.
Þegar laukurinn er farinn að brúnast, eftir ca. 20 mínútur, má setja jógúrtina út á, smá slettu í einu. Þegar sletta er samlöguð, fer næsta sletta o.s.frv. þar til jógúrtin sem á að fara í kássuna er uppurin. Þegar öll jógúrtin er samlöguð má setja tómatana út í og hækka hitann. Hrærið vel svo brenni ekki þar til tómatmaukið fer að skilja sig. Þ.e. þegar fer að fljóta svona falleg rauð fita ofan á. Þetta tekur nokkrar mínútur.
Að lokum er hakkinu bætt út í, smakkað til með salti, pipri og hugsanlega meira garam masala og svo bætt út í ca. 2 bollum af vatni. Kássan má svo sjóða við lágan hita eins lengi og vera vill, ef hún verður allt of þurr má bæta vatni. Ekki gera hana sætari, því hún verður smá sætari þegar erturnar fara út í.
Upplagt að búa til chapatideigið og undirbúa ferska grænmetið og myntusósuna meðan kássan mallar.
Þegar eru 10 mínútur í mat, er ertunum bætt út í ásamt fersku kóríanderinu og hitinn hækkaður og kássan látin þorna. Meðan erturnar sjóða er upplagt að steikja chapati! Það er heldur ekkert vitlaust að veiða negulnaglana og lárviðarlaufið upp úr.

Steikið chapati skv. þeirri uppskrift sem þið notið. (Eða þurrsteikið bara tortillur á heitri pönnu, það er auðveldara og næstum því eins)

Myntusósan er mjög einföld. Saxið myntu og graslauk. Setjið hvítlaukin í gegnum hvítlaukspressuna. Blandið öllu saman.
Ferska grænmetið er einfaldlega grófsaxað.

Svo fær sér hver og einn kássu ofan á sína tortillu, ferskt grænmeti ofan á og drekkir öllu í myntusósu og setur srirachi sósu ef vill. Vefur upp tortilluni ef það er hægt og kjammsar. Þetta er ótrúlega ferskt og gott.

Eina sem ég myndi vilja bæta í þessari uppskrift er að ég myndi líklega vilja blanda svolitlu af soðnum hrísgrjónum við kássuna. Það myndi gera hana auðveldari viðureignar inn í brauðinu. Svona svipað og Serranos er með hrísgrjón í burritos-inu. Eins og þessi uppskrift var, réði ég ekki við að borða tortilluna sem wrap, heldur þurfti ég að nota hnífapör.

Ég náði ekki að taka mynd því þetta var uppurið áður en mér hugkvæmdist að taka hana.

Kjöt í karrý

Thursday, August 8th, 2013

Eftir áralangt tuð fjölskyldunnar eldaði ég loksins kjöt í karrý. Ég hef haft sérstakt ógeð á þessum mat síðan ég var krakki og ekki mikið langað til að elda hann. Ég hef hins vegar fengið aukinn áhuga á íslenskum heimilismat og lét undan. Merkilegt nokk tókst mér að gera mjög ljúffenga máltíð úr þessu. Og það þrátt fyrir blátt bann við því að gera nokkuð fancy við sósuna! Enda svindlaði ég, eins og sést á uppskriftinni.

Kjöt í karrý f. 4

Kjöt og soð:
1 kg súpukjöt
2 laukar
krydd og grænmeti í soð, sjá nánar að neðan en að minnsta kosti piparkornin og lárviðarlauf

Grjón og meðlæti:
2 bollar grjón (meira ef fólk hefur sérstakt dálæti á grjónum)
4 gulrætur

Í sósuna
30 g smjör
2 msk hveiti
krydd, sjá að neðan, en að minnsta kosti 2 tsk karrý. Ég notaði Prima, en ég er ekki frá því að Gevalía sé málið.
mjólk eftir þörfum, ca. 1-2 dl

Nánari útlistun á kjötsuðu:
Kjötið á beinunum og með allri fitu fer í pottinn, ásamt laukunum 2, hýðislausum.
Setjið endilega annað grófsaxað grænmeti eftir hendinni
(ég notaði 1 gulrót , 1/2 harðan kjarnan úr hvítkálshaus, kartöfluhýði og 2 geira hvítlauk)

Ég notaði alls konar krydd til að uppfylla þörf mína fyrir að fikta í klassíkinni. Það er ekki vitlaust að hafa kryddin í grisju, þá er engin hætta á að neinn bíti í negulnagla þegar sest er að snæðingi.
20 svört piparkorn
2 lárviðarlauf
1 “armur” stjörnuanís (má sleppa, en hann eykur kjötbragðið. Það var ekki hægt að greina neitt anísbragð í tilbúnum réttinum)
4 heilar kardimommur
4 negulnaglar
2 allspice ber
2 einiber
2 tsk kóríanderfræ
nokkur þurrkuð fenugreeklauf (gefa rosalegan karrýilm, fást í indversku búðinni á Suðurlandsbraut undir nafninu Kasoori Methe)
nokkur þurrkuð karrýlauf (gefa öðruvísi karríilm, fást í flestum asískum verslunum)
1 þurrkaður chilli (eða smá chilliduft)
1 tsk rósmarín
1/2 tsk herbes de provance (lambakrydd væri eflaust ágætt líka)
1/2 tsk esdragon

1 tsk worchestersósa
1 msk fiskisósa (nota hana ósjaldan í staðinn fyrir kjötkraft)
smá slurkur af kaffi, ef vill
gróft salt, ca. 1 msk (ef notað er fínmalað salt, þá þarf auðvitað minna)

Vatn látið fljóta yfir, pottlokið á, og svo má þetta malla í 2-3 klukkustundir.

Þegar kjötið er vel soðið, má veiða það upp úr og taka mestu fituna af og fleygja.

Soðið er síað. Ég síaði soðið í gegnum grisju, og þá varð nær öll fitan eftir í grisjunni. Það má líka hirða mauksoðnu gulræturnar úr soðinu ef einhver hefur smekk fyrir þeim.

Nú skal setja hrísrjónin yfir. Ég tók bolla af soðinu og setti í hrísgrjónasuðuna og bætti við 1 tsk salti.

Svo skal sjóða meðlætisgulræturnar í bitum í soðinu í 10-12 mínútur.

Þegar gulræturnar eru tilbúnar hefst sósugerð.
Ég bætti 2 tsk af Martini Rosso, 1 tsk af möluðuð hvítum pipar og 1 tsk af rauðvínsediki í soðið. Það væri jafnvel betra að nota 2 matskeiðar af rauðvíni í staðinn fyrir teskeiðarnar af Martini . Vín, edik og hvítur pipar ýta undir brúnsósukeiminn sem ég vildi ná fram.

Ég sauð svo soðið niður úr ca. 1 lítra niður í ca. 3 dl. Einfaldast er að vera með soðið í potti á heitri hellu og hafa stóra heita pönnu á annarri hellu. Hella góðum slurk af soði úr pottinum í pönnuna og sjóða niður á pönnunni um 2/3 og hella í ílát. Endurtaka þar til búið er að sjóða allt soðið niður.

Þegar búið er að sjóða niður, á að búa til smjörbollu. Ég leyfði hveitinu að brúnast örlítið í smjörinu, og hrærði svo upp með slurk af mjólk. Hrærði svo soðinu út í og þynnti svo með mjólkinni þar til hún var temmileg. Svo setti ég karrýið (kannski aðeins meira en þessar 2 tsk), 1 tsk af túrmerik og hnífsodd af garam masala. Ef ég hefði átt fenugreekfræ hefði ég líklega malað 1/2 tsk og bætt út í. Sósan látin sjóða aðeins svo hún þykkni, hrært stöðugt á meðan.

Allt borið fram.

Þetta var mj. gott. Enginn kvartaði yfir að þetta væri of fancy (enda allt fancy-ið falið í soðinu og bragðbætti bara sósuna og kjötið) og ég er ekki frá því að ég muni malla svona aftur fljótlega.Kjot_i_karry_4